Ferill 602. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1280  —  602. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, með síðari breytingum.

Frá umhverfisnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigrúnu Ágústsdóttur og Sigurbjörgu Sæmundsdóttur frá umhverfisráðuneyti, Teit Ómarsson frá Genís ehf., Óskar Maríusson frá Samtökum atvinnulífsins, Ólaf Kjartansson frá Samtökum iðnaðarins, Davíð Egilsson og Helga Jensson frá Hollustuvernd ríkisins, Stefán Hermannsson borgarverkfræðing, Hjalta Guðmundsson frá Staðardagskrárverkefni Reykjavíkurborgar, Stefán Gíslason verkefnisstjóra Staðardagskrár 21, Þórð Skúlason og Sigurð Óla Kolbeinsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Örn Sigurðsson frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur og Tryggva Felixson frá Landvernd.
    Með frumvarpinu er rekstraraðilum tiltekinnar starfsleyfisskyldrar starfsemi gert skylt að vinna árlega efnisuppgjör fyrir starfsemina á svipaðan hátt og gert er með fjármuni fyrirtækja. Lagt er til að fyrsta bókhaldsár verði árið 2003. Í uppgjörinu skal gera grein fyrir streymi hráefnis, orku og vatns til starfseminnar, sem og streymi mengandi efna frá henni. Með slíkum tölulegum upplýsingum er gerð grein fyrir hvernig umhverfismálum er háttað í viðkomandi starfsgrein. Starfsleyfishafi ber sjálfur ábyrgð á þeim upplýsingum sem koma fram í skýrslu um grænt bókhald en gert er ráð fyrir að skýrslan verði eftir endurskoðun, með sama hætti og fjárhagsbókhald fyrirtækja, send til útgefanda starfsleyfis. Þá eru í frumvarpinu gerðar breytingar á lögunum í ljósi fenginnar reynslu af framkvæmd þeirra síðustu ár.
    Nefndin telur rétt að benda á að í frumvarpinu er ekki gerð krafa um að endurskoðun græns bókhalds skuli framkvæmd af löggiltum endurskoðanda eins og gert er ráð fyrir í fylgiskjali fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins með frumvarpinu.
    Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að ráðherra skuli hafa heimild til að veita undanþágu frá færslu græns bókhalds. Telur nefndin rétt að slík undanþáguheimild skuli hafa lagastoð og gerir því tillögu um breytingu þess efnis. Nefndin telur mjög mikilvægt að þátturinn um græna bókhaldið nái fram að ganga þar sem færsla þess er bæði jákvæð fyrir umhverfið og fyrirtækin. Færsla græns bókhalds mun gera rekstraraðilum kleift að fylgjast með helstu umhverfisþáttum starfseminnar. Hún getur auk þess orðið skref í þá átt að fyrirtæki taki upp umhverfisstjórnunarkerfi og í sumum tilvikum leitt til fjárhagslegrar hagræðingar þeirra.
    Af máli gesta og umsögnum til nefndarinnar mátti ráða að færsla græns bókhalds væri ekki íþyngjandi kvöð fyrir starfsleyfishafa heldur væri sett í skipulegan farveg sú upplýsingaöflun sem þegar ætti sér stað.
    Nefndin telur nauðsynlegt að fleiri starfsgreinum verði gert skylt að færa grænt bókhald sem fyrst og nefnir í því sambandi saltverksmiðjur, útgerð og fiskvinnslu, orkufyrirtæki og hitaveitur á háhitasvæðum. Við umfjöllun nefndarinnar kom í ljós að stærðarmörk sumrar starfsemi, sem nefnd er í 8. gr. frumvarpsins, svo sem sláturhúsa og mjólkurvinnslu, séu það há að fyrirtæki í þeim rekstri hér á landi munu ekki þurfa að færa grænt bókhald. Telur nefndin auðsýnt að endurskoða þurfi lögin í því ljósi og gera breytingar á 8. gr. í samræmi við þá niðurstöðu sem fyrst.
    Loks tekur nefndin fram til að taka af allan vafa að með viðurkenndum umhverfisstjórnunarkerfum í 7. gr. er átt við að kerfin séu vottuð.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með eftirfarandi


BREYTINGU:


    Við bætist ný grein er verði 4. gr. og orðist svo:
    Á eftir 7. gr. laganna kemur ný grein, 7. gr. a, svohljóðandi:
    Þegar sérstaklega stendur á getur ráðherra, að fenginni umsögn heilbrigðisnefndar eða Hollustuverndar ríkisins, veitt undanþágu frá skyldu um færslu græns bókhalds skv. 6. gr. a.

    Þórunn Sveinbjarnardóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 11. maí 2001.



Ólafur Örn Haraldsson,


form., frsm.


Kristján Pálsson.


Gunnar Birgisson.



Ásta Möller.


Katrín Fjeldsted.


Ísólfur Gylfi Pálmason.



Kolbrún Halldórsdóttir,


með fyrirvara.


Jóhann Ársælsson,


með fyrirvara.